Nú er styttist verulega í kosningar og ef maður setur sig í spor korters í þrjú manneskju þá gæti ég trúað því að þetta sé svipuð tilfinning fyrir okkur frambjóðendur. Nú er síðasti séns til að fara á stjá og grípa þau sem ekki hafa enn gert upp hug sinn. Ég sit hér yfir kaffibolla seint á miðvikudagskveldi. Kertið brennur hægt og gefur frá sér ljúfa birtu og ég ætla mér að nota þessar dýrmætu mínútur til að koma framboði mínu betur á framfæri fyrir þá sem eiga ef til vill enn eftir að gera upp hug sinn.
Ég er einn af þeim 523 frambjóðendum sem berjast um athygli þína og atkvæði sem vonandi dugar til að koma mér inn á stjórnlagaþing. Ég get ekki svarað því af hverju þú ættir frekar að setja mig í fyrsta sæti frekar en einhvern annan af þessum ágætu frambjóðendum. Það hafa jú allir eitthvað til málanna að leggja annars væru þeir varla hér í framboði, ég er að minnsta kosti ekki hér nema vegna þess að ég tel mig hafa eitthvað til málanna að leggja.
Það eru mörg mál sem stjórnlagaþing þarf að taka á, við vitum það öll. Stjórnarskráin er öll til endurskoðunar hvort sem fólki líkar það eða ekki. Við sem erum í framboði til stjórnlagaþings vitum að það þarf að taka á auðlindarmálum, hlutverki forseta, þrískiptingu valds, náttúruverndar, samskipti ríkis og kirkju o.fl. Við vitum að það þarf að skoða mannréttindakaflann betur. Það þarf jafnframt að taka tillit til þjóðarinnar og Þjóðfundarins sem haldinn var í byrjun nóvember.
Það er þörf á því að til stjórnlagaþings veljist fólk með mismunandi bakgrunn, af báðum kynjum, á mismunandi aldri og ekki bara búsett á höfuðborgarsvæðinu.Ég geri ráð fyrir því að allir þeir sem valdir verða til stjórnlagaþings komi til starfa með opnu hugarfari og deili jafnframt visku sinni og taki við visku annarra.
Ég legg fram mína visku og mitt viðhorf. Mér er annt um mannréttindi og jafnfram ber ég hag barna sérstaklega fyrir brjósti og er umhugað að vernd þeirra og réttindi séu tryggð í stjórnarskrá. Ég legg til að börn fái meira vægi í málefnum sem varðar þau og að tekið sé réttmætt tillit til þeirra.
Já ég er skrítinn að því leiti að ég ber hag barna, hag framtíðarinnar fyrir brjósti. En það þýðir ekki að ég geti ekki sett mig inn í önnur mikilvæg mál. Jú sjáðu til ég kann nefnilega að hlusta og ég kann að taka rökum.
En jæja, nú styttist korterið og kosningar enn nærri en áður. Vonandi hafið þið kynnt ykkur það sem ég hef fram að færa en hver sem ákvörðun ykkar verður þá hvet ég ykkur samt til að fara og kjósa. Hafið þó númerið 5845 í huga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli