föstudagur, 12. nóvember 2010

Fyrir hvað stend ég?

Þegar þetta er skrifað eru rúmar tvær vikur í kosningar til stjórnlagaþings. Frambjóðendur keppast við að vekja eftirtekt kjósenda sem margir hverjir eru farnir að líta í kringum sig eftir vænlegum kostum. Þess vegna er svo nauðsynlegt að frambjóðendur geri grein fyrir því fyrir hvað þeir standa og með þessum litla pistli ætla ég gera mitt besta til þess.

Á fasbókarsíðu minni kemur vel fram að mér er annt um réttindi barna, sem má annars rekja til menntunar minnar og starfa hjá umboðsmanni barna. Það má hins vegar ekki skilja það svo að mér sé ekki umhugað um önnur málefni. Það er ekki einfalt mál að breyta stjórnarskránni og það er ekki að ástæðulausu. Hún er rétthærri öðrum lögum og geymir grundvallarreglur um stjórnskipan ríkis og grundvallamannréttindi borgaranna. Síðast var stjórnarskránni breytt árið 1995 og var þá mannréttindaákvæðum m.a. breytt með tilliti til alþjóðasamninga um mannréttindi eins og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þetta má betur sjá í greinargerð sem fylgdi með þessum breytingartillögum.

Það eru hins vegar mörg mál sem brenna á þjóðinni eins og fram kemur í niðurstöðum Þjóðfundarins 2010 sem haldinn var 6. nóvember síðastliðinn. Mannréttindin eru þar ofarlega sem og náttúra Ísland, verndun hennar og nýting. Réttlæti, lýðræði, valddreifing, friður og alþjóðasamvinna eru einnig orð sem koma þar fyrir. Það er ljóst að verðandi stjórnlagaþingsmönnum bíður vandasamt starf því að til að sátt náist um nýja stjórnarskrá verður að taka tillit til þjóðarinnar og þúsund manna úrtak ætti að endurspegla hennar vilja nokkuð vel.

Það er minn hugur að hlusta á þjóðina og taka réttmætt tillit til hennar því ég veit það að geta tjáð sig um málefni sem varðar mann sjálfan eru mikilvæg réttindi. Það er ekki síður mikilvæg réttindi að tekið sé tillit til þeirra skoðunar og það er ekki síður verðmætt. Þess vegna er mér einnig annt um að börn hafi þann rétt í málefnum sem varðar þau. Fyrir það stend ég og er heill í þeim orðum. En mér er einnig annt um náttúru okkar og auðlindir, mér er annt um menningu, tungu og gildi, mér er annt um lýðræðið. Ég vil sjá skýrari aðgreiningu í þrískiptingu valdsins, á milli löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvalds og ég vil sjá skýra stjórnarskrá núverandi og komandi kynslóðum til heilla.

Já, mér er vissulega annt um réttindi barna en þrátt fyrir það tel ég mig ekki vera eingöngu málsvara þess málefnis því mér er annt um svo margt annað. En í réttindum barna liggur mín sérstaða, bæði menntunar minnar vegna og starfa. Það er hins vegar minn hugur að hlusta á okkur þjóðina og okkar vilja. Niðurstöður þjóðfundarins er þar sterkt vopn og þær munu verða mitt veganesti til stjórnlagaþings verði það vilji kjósenda.

Engin ummæli: