Á þessari síðu mun ég kynna mig og mín stefnumál vegna framboðs til stjórnlagaþings 2010.
föstudagur, 26. nóvember 2010
Er hægt að tryggja öryggi og réttindi barna í stjórnarskránni?
Er hægt að tryggja öryggi og réttinda barna í stjórnarskránni?
miðvikudagur, 24. nóvember 2010
Kaffispjall síðasta korterið
þriðjudagur, 23. nóvember 2010
Samband ríkis og kirkju
föstudagur, 19. nóvember 2010
Veggspjald
Stórvinur minn útbjó þetta glimrandi veggspjald fyrir framboð mitt til stjórnlagaþings. Hvet ykkur eindregið að prenta það út og setja upp á vinnustað ykkar, ískápinn eða þar sem ykkur dettur í hug og leyfi fæst.
Veggpjaldið má nálgast hér: Veggspjald til kynningar
föstudagur, 12. nóvember 2010
Fyrir hvað stend ég?
Þegar þetta er skrifað eru rúmar tvær vikur í kosningar til stjórnlagaþings. Frambjóðendur keppast við að vekja eftirtekt kjósenda sem margir hverjir eru farnir að líta í kringum sig eftir vænlegum kostum. Þess vegna er svo nauðsynlegt að frambjóðendur geri grein fyrir því fyrir hvað þeir standa og með þessum litla pistli ætla ég gera mitt besta til þess.
Á fasbókarsíðu minni kemur vel fram að mér er annt um réttindi barna, sem má annars rekja til menntunar minnar og starfa hjá umboðsmanni barna. Það má hins vegar ekki skilja það svo að mér sé ekki umhugað um önnur málefni. Það er ekki einfalt mál að breyta stjórnarskránni og það er ekki að ástæðulausu. Hún er rétthærri öðrum lögum og geymir grundvallarreglur um stjórnskipan ríkis og grundvallamannréttindi borgaranna. Síðast var stjórnarskránni breytt árið 1995 og var þá mannréttindaákvæðum m.a. breytt með tilliti til alþjóðasamninga um mannréttindi eins og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þetta má betur sjá í greinargerð sem fylgdi með þessum breytingartillögum.
Það eru hins vegar mörg mál sem brenna á þjóðinni eins og fram kemur í niðurstöðum Þjóðfundarins 2010 sem haldinn var 6. nóvember síðastliðinn. Mannréttindin eru þar ofarlega sem og náttúra Ísland, verndun hennar og nýting. Réttlæti, lýðræði, valddreifing, friður og alþjóðasamvinna eru einnig orð sem koma þar fyrir. Það er ljóst að verðandi stjórnlagaþingsmönnum bíður vandasamt starf því að til að sátt náist um nýja stjórnarskrá verður að taka tillit til þjóðarinnar og þúsund manna úrtak ætti að endurspegla hennar vilja nokkuð vel.
Það er minn hugur að hlusta á þjóðina og taka réttmætt tillit til hennar því ég veit það að geta tjáð sig um málefni sem varðar mann sjálfan eru mikilvæg réttindi. Það er ekki síður mikilvæg réttindi að tekið sé tillit til þeirra skoðunar og það er ekki síður verðmætt. Þess vegna er mér einnig annt um að börn hafi þann rétt í málefnum sem varðar þau. Fyrir það stend ég og er heill í þeim orðum. En mér er einnig annt um náttúru okkar og auðlindir, mér er annt um menningu, tungu og gildi, mér er annt um lýðræðið. Ég vil sjá skýrari aðgreiningu í þrískiptingu valdsins, á milli löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvalds og ég vil sjá skýra stjórnarskrá núverandi og komandi kynslóðum til heilla.
Já, mér er vissulega annt um réttindi barna en þrátt fyrir það tel ég mig ekki vera eingöngu málsvara þess málefnis því mér er annt um svo margt annað. En í réttindum barna liggur mín sérstaða, bæði menntunar minnar vegna og starfa. Það er hins vegar minn hugur að hlusta á okkur þjóðina og okkar vilja. Niðurstöður þjóðfundarins er þar sterkt vopn og þær munu verða mitt veganesti til stjórnlagaþings verði það vilji kjósenda.
sunnudagur, 7. nóvember 2010
Pistlar
Upplifun mín á föðurhlutverkinu
Í flestum býr einhver þrá að eignast erfingja. Margar konur hafa lýst stórbrotnum klingjum í eggjastokkunum þegar þær halda á litlum börnum og löngunin getur víst orðið ansi mögnuð. Við karlar upplifum þetta sumir eins. Það er að segja að okkar þrá eftir því að eignast lítið kríli getur verið nokkuð sterk án þess að neinir stokkar fari að hringla. Auðvitað erum við mismunandi þenkjandi og margir kynbræður mínir upplifa þetta á allt annan hátt en ég kem til með að lýsa hér í þessari grein. Hér er nefnilega ætlun mín að lýsa fyrir ykkur lesendum mína upplifun sem föður af meðgöngunni, fæðingunni og fyrsta ári barnsins míns.
Þegar sú staða kom upp að hugsanleg fjölgun væri von í minni nýtilkominni fjölskyldu var tilhlökkunin gífurleg. Á þessum tíma var konan upptekin í námi og því tók ég að mér það skemmtilega verkefni að kaupa þungunarpróf í lyfjabúð. Tæknilega séð var takmarkið aðeins eitt en þvílíkan fjölda af þungunarprófum hef ég aldrei tekið eftir. Tilgangurinn var sá sami með öllum þessum prófum þ.e. að komast að því hvort grunur okkar væri réttur. En með allan þennan kost fyrir framan mig tók við mikill valkvíði, hver er nú áreiðanlegastur, af hverju er þessi ódýrari en hinn? Er einhver tæknilega betri en annar? Ég dvaldi þó nokkra stund við þetta og endaði með því að kaupa þennan millidýra. Í stuttu máli þá virkaði sá vel og ég geymi ennþá myndina sem konan mín yndislega sendi mér á símanum af niðurstöðunum sem sýndu tvær skýrar línur.
Nú tók við tími sem við feður getum lítið annað gert en að vera til staðar og veita stuðning. Meðgangan gekk vel og enn skil ég ekki þá mýtu að konur fái óstjórnlega löngun í eitthvað matarkyns um miðjar nætur. Að vísu fengu ég og stjúpsonur minn ís oftar en venjulega, móðurinni til samlætis og innkaup á ferskum ávöxtum jókst um helming. Mæðraeftirlit fór í gang hjá heilsugæslunni og einsetti ég mér að mæta í allar skoðanir með konunni sem ég og gerði. Ljósmóðirin skynjaði vel áhuga minn og var óspör á að fræða mig um það sem framundan var. Þessir tímar eru ekki síður mikilvægir fyrir okkur feður það fann ég vel. Þó svo að móðirin og ófætt barn hafi verið þarna í algjöru aðalhlutverki þá varð allt ferlið svo raunverulegt fyrir mér. Það eitt að geta hlustað á hjartslátt barnsins er ómetanlegt og að geta fylgt verðandi barnsmóður minni í gegnum ferlið styrkti samband okkar meira en ella. Við fórum einnig á foreldranámskeið, heimsóttum fæðingardeildina og Hreiðrið á Landspítalanum, fórum á parakvöld í tengslum við meðgöngujóga en umfram allt nutum við þessa tíma saman. Það finnst mér vera lykilatriði og ég er afskaplega feginn að hafa fengið tækifæri til þess.
Eftir nokkuð góða og eðlilega meðgöngu kom loks kallið. Ég var komin í síðbúið sumarfrí frá vinnu á þessum tíma og var því heima þegar verkirnir byrjuðu að morgni til. Það sem kom mér mest á óvart var hve rólegur ég varð. Ég hafði undirbúið mig vel, skrifað niður símanúmerið hjá fæðingardeildinni sem og hjá Hreiðrinu. Ég hafði meira að segja mælt út bestu leiðina á spítalann og tekið tímann hve lengi ég var að keyra. Það var því engin streita fyrir hendi að minni hálfu, en þvílík ósköp hvað ég vorkenndi minni elskulegu konu þegar verkirnir fóru að ágerast, það lá við að ég fengi sektarkennd. Mundi þá eftir orðum ljósmóðurinnar á námskeiðinu sem sagði að með hver verkur færði okkur nær takmarkinu. Ég veit hins vegar ekki hvort að konan hafi verið sammála þeirri röksemd á þessum tíma. Ég kom okkur í samband við ljósmóður sem var með það alveg á hreinu hvenær heppilegast væri að koma til þeirra og þegar sá tími rann þá var ekki verra að hafa kynnt sér bestu leiðina áður.
Við vorum svo heppin að það var laus stofa einmitt á Hreiðrinu þar sem aðstæður voru alveg til fyrirmyndar. Baðkar, sér klósett og til að ná enn huggulegra andrúmslofti settum við róandi geisladiska af keltneskum uppruna í tækið og létum tónana renna meðan á þessu stóð. Við vorum þarna í tæpa þrjá klukkutíma, konan var í baðinu og ég tók hlutverk mitt alvarlega og beindi bununni úr sturtuhausnum að mjóbakinu til að lina verkina. En mikið ósköp fann ég til með henni, sektarkenndin jókst hjá mér með hverju öskri sem fylgdi verkjunum. En loks kom að takmarkinu, kollurinn kom í ljós og brátt fengjum við að kynnast þeim einstakling sem hafði vaxið og dafnað í rúma níu mánuði inni í hlýjum vistarverum móðurinnar. Út kom það fallegasta barn sem ég hafði augum litið. Það var strákur! Allt í einu skildi ég þá tilfinningu að verða foreldri. Ég dáðist að stráknum mínum meðan hann var á bringu móður sinnar og gleymdi algjörlega stað og stund. Einhvers staðar hafði ég heyrt um feður sem hefðu rifið sig úr bolnum og lagt barnið á bera bringuna. Það var einmitt það sem ég gerði, á eftir móðurinni að sjálfsögðu. Þarna varð föðurtilfinningin svo sterk að orð geta ekki lýst. Eftir að hafa jafnað okkur á þessu kraftaverki var okkur boðið að dvelja í fjölskylduherbergi í kyrrð og ró. Það var ákaflega dýrmætur tími að vera í þessu einangraða umhverfi með allt þetta fagfólk á næstu grösum ef eitthvað kæmi uppá. Þó sá tími hafi verið afskaplega góður var samt gott að koma heim með nýjasta einstaklinginn í fjölskyldunni og kynna hann fyrir sínu fólki.
Sonur minn er svo lukkulegur að eiga einn stóra bróður sem konan mín á fyrir. Sá var glaður þegar hann heyrði að hann hefði eignast lítinn bróður. Það er örugglega ekki auðvelt þegar svona miklar breytingar verða á lífi fólks. Fyrst kom ég inn í þeirra líf og svo tveimur árum síðar er komin alveg splunkunýr bróðir. Hlutirnir geta gerst hratt og fyrir mig var breytingin ekki síður stór. Það er stórt stökk frá því að vera einhleypingur og að vera allt í einu komin með stóra fjölskyldu. Gildin verða allt önnur og hugsunarhátturinn breytist. Ég hafði fram að þessum tíma verið að humma fram af mér lokaverkefni mitt í háskólanum en núna fann ég eins og ég yrði að klára þetta. Ég kláraði lokaritgerðina í uppeldisfræðum með góðum árangri og síðar fann ég enn meiri þörf á að fara í frekara háskólanám og skráði mig í meistaranám í Menningarstjórnun á Bifröst. Það nám stunda ég nú og hef sjaldan haft jafn mikið gaman af því að nema.
Fyrstu dagarnir heima einkenndust af svefnlausum nóttum og mikilli hamingju yfir nýjasta fjölskyldumeðlimnum. Allir í kringum okkur voru auðvitað voðalega spenntir og hamingjuóskunum rigndi yfir okkur. Sem betur fer var þó lítið um heimsóknir fyrstu dagana. Einungis þeir sem stóðu okkur næst komu til að kíkja á soninn en aðrir biðu betri tíma. Fyrstu þrjá dagana var maður enn í skýjunum og uppnuminn yfir þessu kraftaverki og tilfinningin hljóp oft með mann í gönur. Það er sagt að eðlilegt sé fyrir konur að fá spennufall og gráta eftir þennan tíma. Það sama getur einnig gilt um feður. Ég er sjálfur ekki mikið fyrir það að bera mínar tilfinningar á loft og græt ekki fyrir framan aðra. Því fór ég afar samviskusamlega inná klósett og tárin runnu niður kinnarnar. Mér fannst þetta bara allt svo stórkostlegt og tilkomumikið að ég hreinlega varð að koma því frá mér, í einrúmi. Ég var að springa af gleði og umhyggjusemi og allir mínir kraftar voru nú tileinkaðir mínu nýfædda barni og fjölskyldu. Ég gerðist heimilisfaðir, sá um að móðirin hvíldi sig, huggaði soninn þegar hann fékk magakrampa, skipti um bleyjur og hafði einnig áhyggjur af brjóstagjöf. Við höfðum ákveðið að ég tæki þriggja mánaða feðraorlof eftir sex mánuði og ég hlakkaði mjög mikið til að helga krafta mína þessu starfi eingöngu. Loksins kom rann sá tími upp og ég horfði með eftirvæntingum á allt það sem ég gæti áorkað á þeim tíma. Ég ætlaði nú aldeilis að nota tímann til að skrifa eitt stykki barnabók í bland við barnauppeldið, fara í heimsóknir til vina og ættingja og svo framvegis. Reyndin varð reyndar allt önnur og að sinna þessu litla barni varð full vinna, en hún var jafnframt sú skemmtilegasta sem ég hef unnið. Henni fylgdu reglulegar gönguferðir, miklar pælingar um mataræði og næringu og síðast en ekki síst góðar samverustundir.
Ég tók mikið eftir öllum þeim feðrum og mæðrum sem voru þar á ferð með sín afkvæmi og hjó eftir því að konur voru oftar en tvær eða fleiri í hóp með álíka marga vagna. Karlarnir voru hins vegar undantekningalaust einir. Hver svo sem sú ástæða kann að vera þá tók ég einnig eftir því að sérstaklega eldra fólk horfði mikið á eftir mér með barnavagninn. Ég leit þá stoltur á soninn og brosti mínu breiðasta vitandi það að ég var í þeirri stöðu sem ekki margir feður höfðu verið í hér á árum áður. Þessi tími var mér mjög dýrmætur, ég hefði þó fegin viljað að hann yrði lengri. Fyrsta árið var fljótt að líða og á þeim tíma urðu margar áhrifaríkar breytingar í lífi okkar. Konan var nú orðin framhaldsskólakennari og fékk mjög fljótt vinnu við kennslu. Ég hafði fundið fyrir leiða í starfi og sá fram á litla framþróun þar, þannig að ég hætti í minni vinnu og fór í meistaranám við Háskólann á Bifröst. Á þeim fallega stað dvöldum við öll hluta af sumrinu. Sú ákvörðun að setjast aftur á skólabekk var án efa ein sú besta sem ég hef tekið um árabil. Ég efast þó stórlega um að ég hefði látið hana verða að veruleika ef ekki væri fyrir hið nýja föðurhlutverk. Ábyrgðartilfinningin kom þannig fram hjá mér að ég fann að ég yrði að gera mitt besta til að verða samkeppnishæfur á atvinnumarkaðnum. Hugsunin var sú að til að fá sem bestu mögulegu laun yrði menntunin að aukast. Hvort það eigi eftir að skila sér veit ég ekki en ég finn að með aukinni þekkingu fylgir vellíðan og sú líðan skilar sér margfalt til fjölskyldunnar.
Eflaust var það okkar fyrirhyggju að þakka að við fengum mjög fljótlega pláss hjá góðri dagmömmu fyrir strákinn okkar. Meðvituð um það ástand sem ríkir í dagvistunarmálum þá sóttum við um pláss hjá dagmömmu og í leikskóla þegar hann var ekki einu sinni orðinn tveggja mánaða. Við fórum strax á biðlista eftir leikskólaplássi og erum þar enn, hins vegar fundum við góða dagmömmu sem til mikillar hamingju var með laust pláss næsta haust. Við höfðum snör handtök og tókum því fegins hendi og mjög lukkuleg yfir því að vera búinn að redda þessu. Þegar við komum aftur heim frá Bifröst byrjaði sonurinn ungi hjá henni. Fyrstu vikurnar voru ákaflega erfiðar, sérstaklega fyrir okkur foreldrana. Það kom nokkuð í minn hlut að fara með hann og sækja og hann grét mjög mikið þegar ég fór frá og þegar ég kom aftur. Hann jafnaði sig þó furðu fljótt en það er erfitt að heyra barnið sitt gráta og yfirgefa það um leið. Núna fer hann kátur í fang dagmömmunnar, leikur sér við hina krakkana og skemmtir sér konunglega. Það koma auðvitað upp misgóðir dagar. Hann hafði t.d. alltaf verið mjög heilsuhraustur og aldrei fengið hita eða verið mjög veikur. Það byrjaði þó allt þegar hann fór í dagvistun. Hitinn kom, kvefið, hálsbólgan, eyrnabólga ásamt sýkingu í auga og komum á heilsugæslustöðina fór fjölgandi.
Nú hef ég gefið ykkur örlitla innsýn í mína upplifun á föðurhlutverkinu frá meðgöngu til dagsins í dag. Nú er strákurinn minn rúmlega eins árs gamall og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt alveg eins og hann sjálfur. Meðan hann hefur lært að babla, skríða, toga sig upp, labba og allt þar á milli hef ég tileinkað mér aðra hluti. Ég nýt allra þeirra samverustunda sem ég fæ með honum og við feðgarnir eigum það til að hlusta saman á góða tónlist af öllum tegundum. Ég horfi þá hugfanginn á hann þegar hann annaðhvort hreyfir sig í takt við tónlistina eða situr þögull og horfir með aðdáun á tækið sem framkallar þessi dásamlegu hljóð. Hann er músíkalskur og ég veit að ég mun gera allt mitt besta til að styrkja þann eiginleika hjá honum. Ég er mjög stoltur faðir og finn að þetta er það hlutverk sem ég hef beðið eftir að sinna í öll þessi ár. Ég fann minn sálufélaga og fékk mínar óskir uppfylltar um að verða faðir. Þessi upplifun er þó einungis mín en ég veit að ég er ekki einn um að upplifa hlutverkið á þennan hátt. Það eru þó allnokkrir feður sem fá ekki tækifæri til að njóta þessa eins og ég hef gert. Sumir kynbræður mínir kæra sig kollótta um slíkt og eflaust hafa þeir sínar ástæður fyrir því. Ég nýt þess að vera faðir, ég nýt samverustundanna með fjölskyldu minni, konu, stjúpsyni og syni og ég á eftir að njóta þess jafnvel í framtíðinni. Hvort að börnin verði fleiri mun tíminn einn leiða í ljós en ég er tilbúinn hvenær sem er aftur.
Birtist í tímaritinu Uppeldi í nóvember 2007